Árborg og Hveragerði taka á móti tuttugu flóttamönnum

Ríkisstjórn Íslands ákvað í byrjun vikunnar að um tuttugu flóttamenn frá Sýrlandi fengju nýtt heimili í Hveragerði og Árborg. Er þetta um helmingur þess fólks sem kemur til landsins sem flóttamenn í október næstkomandi.

Ekki er ljóst hvernig skiptingin verður, það fer eftir samsetningu hópsins, að því er Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar sagði í samtalið við Sunnlenska. Ásta og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, hafa unnið náið saman í undirbúningi á móttöku flóttamannanna.

„Þetta er krefjandi verkefni, við vorum ekki að bjóðast til að taka á móti flóttamönnum nema að við ætluðum að gera það vel,“ segir Aldís. Hún segir vissulega þröngt um húsnæði sem stendur en búið verði að ganga frá slíku áður en að kemur. Hún telur líklegt að auglýst verði eftir húsnæði fyrir fólkið, sem leigt verður af sveitarfélaginu og ríkið borgar reikninginn að lokum.

Samningur við Árborg og Hveragerði er til tveggja ára, en miðað er við flóttafólkið verði búið að koma fótum vel undir sig að þeim tíma loknum.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu