Árborg og Fossbúar framlengja þjónustusamning

Sveitarfélagið Árborg og Skátafélagið Fossbúar undirrituðu áframhaldandi samstarfssamning í síðustu viku. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Inga Úlfsdóttir, félagsforingi Fossbúa undirrituðu samninginn.

Samningurinn er til þriggja ára og í honum kemur til að mynda fram að sveitarfélagið styðji við bakið á skátafélaginu með rekstrarstyrk og afnotum af húsnæði. Starf skátafélagsins hefur vaxið mikið undandarin ár en félagið kemur einnig að nokkrum bæjarhátíðum í sveitarfélaginu og sér t.d. um framkvæmd á hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta.

Í farvatninu er einnig stórt skátamót sem haldið verður á Íslandi sumarið 2017 en þar verða Fossbúar í stóru hlutverki enda Selfoss áætlaður sem gististaður fyrir hluta af mótinu og má búast við hundruðum skáta í gistingu á svæðinu þá daga sem mótið stendur yfir.