Árborg kaupir tvær fasteignir

Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að kaupa fasteignirnar Álftarima 2 og Gagnheiði 39 á Selfossi af fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra.

Í Álftarima 2 er skammtímavistun fyrir fatlaða en í Gagnheiði 39 er VISS, vinnu- og hæfingarstöð til húsa.

Kaupverðið á eignunum tveimur er rúmar 89 milljónir króna og segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, að ríkið hafi beitt sér fyrir því með yfirfærslu málefna fatlaðra að sveitarfélögin leysi til sín húsnæði sem notað er fyrir fatlaða.

„Kaupverðið hækkar skuldir sveitarfélagsins en engu að síður er hagstæðara fyrir Sveitarfélagið Árborg að kaupa þetta frekar en að leigja þegar til lengri tíma er litið,“ sagði Eyþór í samtali við sunnlenska.is. „Á móti kaupunum kemur eyrnarmerkt framlag sem dugar fyrir kostnaðnum sem af þessu hlýst.“

Fyrri greinMarín valin þriðja árið í röð
Næsta greinNokkur bráðaútköll yfir hátíðarnar