Árborg kaupir Múla

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt, samkvæmt sérstöku tilboði þar um, að kaupa alla hluti í félaginu Verktækni ehf. sem er eigandi hússins Múla við Eyraveg á Selfossi, sem hýsir Tónlistarskóla Árnesinga.

Framkvæmdastjóra Árborgar hefur verið falið að ganga frá kaupsamningnum en samþykktur verður sérstakur viðauki í fjárhagsáætlun vegna málsins.

Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs segir kaupin hagstæð fyrir sveitarfélagið bæði til lengri og skemmri tíma litið. „Þetta er í raun eina eignin sem sveitarfélagið er að leigja og um er að ræða langtíma leigu og því kemur sú skuldbinding fram á reikningum sem slík en það breytist nú,“ segir Eyþór.

Með þessu minnkar greiðslubyrðin þar sem lánakjör sveitarfélagsins eru hagstæð.

Þótt Tónlistarskólinn sé í raun rekinn af héraðsnefnd Árnesinga hafa sveitarfélögin séð honum fyrir húsnæði, hvert á sínu svæði.

Félagið Verktækni ehf. er í eigu erfingja Sigurðar Karlssonar, verktaka á Selfossi, og munu eigendur losa um aðrar eigur þess áður en það færist til sveitarfélagsins.

Fyrri greinFyrstu titlar Smára og Brynhildar í fullorðinsflokkum
Næsta greinSelfoss flaug inn í 8-liða úrslitin