Árborg í viðræður við ríkið um nýtt gólf í Iðu

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að hefja formlegar viðræður við Fasteignir ríkisins um endurnýjun á gólfi íþróttahússins Iðu á Selfossi, sem er í umráðum ríkisins.

Á undanförnum mánuðum hefur það verið til skoðunar að flytja starfsemi handboltadeildar Selfoss úr Vallaskóla yfir í Iðu. Í þeim viðræðum fór stjórn handknattleiksdeildarinnar fram á að skipt verði um gólf í Iðu þar sem hún telur að núverandi gólf henti ekki fyrir handknattleik.

Handknattleikssamband Íslands hefur veitt Selfyssingum áframhaldandi undanþágu til þess að nota íþróttahús Vallaskóla fyrir leiki meistaraflokka næsta vetur. Vallaskóli var á undanþágu hjá HSÍ á síðasta keppnistímabili þar sem húsið uppfyllir ekki þær kröfur sem HSÍ gerir vegna leikja í efstu deild.

Eftir fund HSÍ með fulltrúum Sveitarfélagsins Árborgar fyrir skömmu samþykkti HSÍ að veita undanþágu áfram fyrir næsta keppnistímabil, gegn því að gerðar verði frekari endurbætur í Vallaskóla. Rýmra þurfi að vera um varamannabekki og súlur klæddar svampi.

Undanþágan er veitt til eins árs, enda gerir HSÍ ráð fyrir því að þá verði komin fram samþykkt fyrir endurbótum í Iðu. Það er mat bæði sveitarstjórnar og HSÍ að Iða henti betur til handboltaiðkunar en þá þurfi að skipta um gólf og sjá til þess að auglýsingaskilti og notkun á harpixi verði leyfð í húsinu. Þá er sveitarfélagið tilbúið að bæta úr áhorfendaaðstöðu ef aðsókn verður góð á leiki meistaraflokkanna.

Á sama fundi bæjarráðs í gær var tekin fyrir ósk Ungmennafélags Selfoss um að taka við rekstri íþróttahúss Vallaskóla. Bæjarráð telur ekki tilefni til þess að svo stöddu vegna þeirra breytinga sem liggja í loftinu varðandi mögulegan flutning handboltans yfir í Iðu.

Fyrri greinMæðgin og feðgin meistarar í þremur klúbbum
Næsta greinKiriyama Family bætist í hópinn á Laugarvatni