Árborg gefur út fyrsta sjálfbærniskuldabréfið á Íslandi

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg hefur gefið út sjálfbærniskuldabréf (GBS) með auðkennið ARBO 31 GSB. Seld hafa verið skuldabréf í flokknum fyrir 1,4 milljarða króna að nafnvirði. Skuldabréfin voru seld í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,35%. Heildareftirspurn í útboðinu var rúmlega 3,1 milljarður króna að nafnvirði.

„Sveitarfélagið Árborg er fyrsti útgefandinn til að gefa út sjálfbærni skuldabréf hér á landi til fjármögnunar á verkefnum sem hafa umhverfis- eða félagslegan ávinning. Skuldabréfin eru gefin út í samræmi við Sjálfbærniumgjörð Árborgar sem lýsir nálgun sveitarfélagsins í sjálfbærri fjármögnun. Landsbankinn hf. hefur umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og töku þeirra til viðskipta á „sustainable bond“ markað Nasdaq á Íslandi,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.

Sjálfbærniumgjörð Árborgar samræmist alþjóðlegum viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og hefur hlotið óháða vottun frá Sustainalytics, sem er leiðandi viðurkenndur vottunaraðili í sjálfbærum fjármálum á heimsvísu. Umgjörðin byggir á áætlunum sveitarfélagsins í umhverfisvænni og félagslegri uppbyggingu.

„Sveitarfélagið hefur frá árinu 2019 lagt áherslu á að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka frá árinu 2019 í Framfaravog sveitarfélaga um samfélagslegar framfarir, sem starfar undir vottun SPI, er liður í þessari vegferð, ásamt metnaðarfullri umhverfisstefnu Árborgar sem bæjarstjórn samþykkti á árinu 2020,“ segir Gísli ennfremur og bætir við að vel heppnað skuldabréfaútboð megi þakka áherslum Árborgar á sjálfbærni og því að sjálfbærniumgjörð með vottun Sustainalytics kemur þessum áherslum til skila til markaðarins með stöðluðum hætti.

„Sjálfbærniumgjörðin og árangursrík skuldabréfaútgáfa hafa það í för með sér Sveitarfélagið Árborg sér mikinn hag í að leggja enn þyngri áherslur á viðmið um sjálfbærni, þegar kemur að forgangsröðun og vali á fjárfestingarverkefnum og við framkvæmd þeirra,“ segir Gísli Halldór að lokum.

Fyrri greinTveir í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinHamar sá á eftir úrvalsdeildarsætinu