Árborg fær menningarsalinn

Menningarsalurinn á Selfossi. Mynd úr safni.

Sveitarfélagið Árborg mun eignast menningarsalinn í Hótel Selfoss sem hluta af uppgjöri við eigendur hótelsins. Eignaskiptasamngur mun að líkindum verða frágenginn innan skamms tíma.

„Þarna er um heildarskuldauppgjör sem ég tel að komi vel út fyrir báða aðila,“ segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, sem ítrekar þó að samningurinn sé ekki að fullu frágenginn. Samkvæmt því sem ráð er gert fyrir í samningum mun hótelið leigja salinn í amk. tvö ár af bænum.

„Við leggjum kapp á að koma starfsemi þar á fót sem fyrst, í hvaða formi sem það verður,“ segir Ásbjörn Jónsson, hótelstjóri.

Ætlunin er að finna salnum tilgang, en hvorugur aðilanna hefur þó skuldbundið sig til að setja pening í framkvæmdir í salnum.

Í upphafi árs sagði Sunnlenska frá því að félagið FF800, sem á hótelbygginguna, skuldaði fasteignagjöld upp á 70-80 milljónir króna, en ekki fæst uppgefið hvort umrædd upphæð sé kaupverð salarins.

Menningarsalurinn hefur staðið fokheldur í rúman aldarfjórðung. Hann er um 1300 fermetrar að stærð og þar er gert ráð fyrir allt að 350 gestum í sæti.

Fyrri greinFyrri forkeppni Uppsveita-stjörnunnar í dag
Næsta greinMandarínusalar í jólaskapi