Árborg ekki lengur undir eftirliti

Sveitarfélagið Árborg er laust undan eftirliti Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem hóf eftirlitið árið 2010 þegar skuldir sveitarfélagsins voru 206% af tekjum þess.

Jafnframt var sveitarfélagið með of lítinn rekstrarafgang til að uppfylla viðmið eftirlitsnefndarinnar. Í júlí 2010 barst sveitarfélaginu athugasemd eftirlitsnefndarinnar og hefur sveitarfélagið síðan unnið markvisst að því að ná viðmiðum hennar og hafa skuldir farið úr því að vera yfir 206% af tekjum í að fara undir 150% um síðustu áramót.

Þá hefur rekstrarafgangur verið hærri en 15% af tekjum frá árinu 2010 og þar með er Sveitarfélagið Árborg einnig yfir viðmiðum eftirlitsnefndarinnar hvað þetta varðar. Sveitarfélagið hefur þannig náð að uppfylla skilyrði Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga á aðeins þremur árum.

Sveitarfélaginu hefur nú borist bréf frá Eftirlitsnefndinni þar sem tekið er fram að ekki sé óskað frekari upplýsinga vegna þessa máls og er sveitarfélagið þar með ekki lengur undir eftirliti nefndarinnar.

Málið var rætt á fundi bæjarráðs í morgun þar sem fram kom að unnið hafi verið að hagræðingu og bættum rekstri sveitarfélagsins með samstilltu átaki bæjarfulltrúa, starfsmanna og íbúa sveitarfélagsins.

Fyrri greinÞyrla sótti slasaðan vélsleðamann
Næsta greinÞórsarar töpuðu toppslagnum