Árbakki skemmtilegasta gatan á Selfossi

Árbakki var valin skemmtilegasta gatan á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi sem lauk í dag. Hátíðarhöldin fóru mjög vel fram.

Viðurkenningin var afhent á Sléttusöngnum í gærkvöldi þar sem þúsundir manna voru saman komnir í Sigtúnsgarði í miðbæ Selfoss.

Lóurimi 1 var best skreytta húsið og bláa hverfið var valið besta hverfið. Þá fengu íbúar Berghóla sérstaka viðurkenningu frá forsvarsmönnum Brúarhlaupsins fyrir góðan stuðning við hlauparana í gærmorgun.

Að sögn Guðjóns Bjarna Hálfdánarsonar, sem er framkvæmdastjóri hátíðarinnar fyrir hönd Knattspyrnufélags Árborgar, gekk hátíðin vel fyrir sig, en hún hófst á miðvikudag og náði hápunkti í gær. Metmæting var í bæði á föstudagstónleikana í bæjargarðinum og í morgunverðarhlaðborðið á laugardagsmorgun.

Lögreglan tók í sama streng en þrátt fyrir að mikið líf væri í bænum í gærkvöldi fór skemmtanahald almennt vel fram. Enginn gisti fangageymslu og hafa engin brot hafa verið til­kynnt eft­ir hátíðina.

Fyrri greinSlasaðist í vélsleðaslysi
Næsta grein„Getur haft mikla þýðingu fyrir nýliða eins og okkur“