Áralöng reynsla innan Útfararstofunnar

„Við bjóðum upp á allt sem tengist útfararþjónustu,“ segir Gísli Gunnar Guðmundsson, en hann opnaði nýlega Útfararstofu Árnessýslu ásamt Svanhildi Eiríksdóttur.

Útfararstofan er til húsa í Gagnheiði 74 á Selfossi og þar er bæði líkhús og aðstaða til að taka á móti aðstandendum. „Við erum með líkhús, sjáum um líkflutninga, kistulagningu og útför. Einnig smíðum við krossa og kistur. Þannig getum við boðið gott verð á kistunum okkar.“

Útfararstofan var opnuð í mars á þessu ári. „Þetta hefur farið rólega af stað. En það er nú margt verra en að það sé rólegt að gera í þessu starfi,“ segir Gísli Gunnar og bætir við, „en við þjónum þeim sem þurfa á þessu að halda hvort sem það er á Suðurlandi eða á höfuðborgarsvæðinu.“

Hjá Útfararstofunni starfa auk Gísla Gunnars og Svanhildar, Guðmundur Þór Gíslason faðir Gísla og Elfar Sigurjónsson sem útfararstjórar og Margrét Einarsdóttir er líksnyrtir. Þau Guðmundur og Margrét hafa áralanga reynslu, en þau störfuðu í mörg ár við útfararþjónustu hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur.