Appelsínugul viðvörun: Vegum líklega lokað

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland sem gildir frá kl. 15 á mánudag fram að hádegi á þriðjudag.

Veðurstofan gerir ráð fyrir austan og síðar norðaustan stormi eða roki, 20-28 m/sek en jafnvel allt að 30 m/sek seint á mánudagskvöld og fram á nótt. Samgöngutruflanir eru líklegar og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.

Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausamunum til að forðast foktjón.

Gangi spáin eftir má búast við lokunum á vegum síðdegis á mánudag á milli Hvolsvallar og Víkur, og á Skeiðarársandi og í Öræfasveit. Verði vegunum lokað má búast við að lokanirnar verði í gildi fram undir hádegi á þriðjudag.

Spáð er ofsaveðri suðaustanlands og undir Eyjafjöllum verða vindhviður allt að 45 m/sek um miðjan dag á mánudag og litlu síðar við Lómagnúp og í Öræfum.

Fyrri greinGöngukona slasaðist á Tungufellsdal
Næsta greinLíkfundur við Arnarbæli í Ölfusi