Appelsínugul viðvörun: Ráðlegt að fresta ferðalögum

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun sem gildir á Suðurlandi á milli kl. 8 og 15 á morgun, laugardag.

Gert er ráð fyrir suðaustan stormi eða roki, 18-25 m/sek með snjókomu strax í fyrramálið og síðan slyddu.

Skyggni verður lélegt og akstursskilyrði slæm. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Hægari vindur og úrkomuminna í uppsveitum.

Búast má við samgöngutruflunum og er fólki bent á að sýna varkárni og fresta ferðalögum fram yfir gildistíma viðvöruninnar.

Þegar líður á morgundaginn færist óveðrið austar og er gul viðvörun í gildi fyrir Suðausturland þar sem vindstrengir geta farið yfir 35 m/sek, einkum í Öræfum og í Mýrdalnum.

Hvasst í Öræfunum í dag
Í dag er í gildi gul viðvörun á Suðausturlandi með 18-23 m/sek austan Öræfa og mjög snörpum vindkviðum við fjöll. Veðrið á að ganga niður síðdegis í dag.

Fyrri greinHafsteinn íþróttamaður Hveragerðisbæjar 2019
Næsta greinRáðherra kynnir hálendisþjóðgarð