Appelsínugul viðvörun: Ekkert ferðaveður í fyrramálið

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá klukkan 6 til 9:30 á þriðjudagsmorgun.

Raunar er appelsínugul viðvörun í gildi um nánast allt land vegna skila sem ganga hratt yfir landið.

Á Suðurlandi verður sunnanátt, 20-28 m/sek og vindhviður staðbundið yfir 40 m/sek á meðan viðvörunin er í gildi.

Mikil úrkoma fylgir skilunum, slydda eða snjókoma og takmarkað skyggni.

Fólki er bent á að tryggja muni utandyra og að ekkert ferðaveður er á svæðinu á meðan veðrið gengur yfir.

Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá klukkan 7:30 til 12:30.

Fyrri grein„Þetta var gaman í kvöld“
Næsta greinVegurinn opnaður í vikunni