Appelsínugul viðvörun á Suðurlandi

Veðurstofan hefur uppfært veðurviðvörun dagsins á Suðurlandi úr gulri viðvörun í appelsínugula.

Það hvessir á landinu seinnipartinn með hríðarveðri, fyrst með suðurströndinni. Gert er ráð fyrir norðaustan hvassviðri eða stormi með snjókomu, 18-28 m/s en hvassast undir Eyjafjöllum og í Mýrdal 23-28 m/s, sem og við Öræfajökul en þar geta vindkviður farið yfir 40 m/s.

Ekkert ferðaveður verður á meðan appelsínugula viðvörunin er í gildi.

Vegna veðurs er búið að loka veginum undir Eyjafjöllum og að Vík. Ekki er útilokað að vegum verði lokað lengra til austurs, allt að Jökulsárlóni.

Þæfingsfærð er á Lyngdalsheiði og skafrenningur.

Fyrri greinMargrét íþróttamaður Hamars 2019
Næsta greinLandsbankinn styður handboltann áfram