Anton Kári leiðir D-listann í Rangárþingi eystra

Anton Kári Halldórsson, byggingarfulltrúi, skipar efsta sætið á lista Sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Listinn var samþykktur á félagsfundi Kára, félags sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra, síðastliðinn fimmtudag.

Eftir skoðanakönnun á meðal félagsmanna Kára tók uppstillingarnefnd niðurstöður hennar og lagði fram listann í heild sinni. Jafnt kynjahlutfall er á listanum en hann skipa sjö konur og sjö karlar.

Í öðru sæti er Elín Fríða Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur, Guðmundur Viðarsson, bóndi og atvinnurekandi, skipar þriðja sætið og Harpa Mjöll Kjartansdóttir, ferðaskipuleggjandi, það fjórða. Angelia Fjóla Vilhjálmsdóttir, Baldur Ólafsson og Esther Sigurpálsdóttir koma þar á eftir.

Þá var samþykkt að Anton Kári Halldórsson verður sveitastjóraefni listans.

D-listinn fékk 33,4% atkvæða í síðustu sveitarstjórnarkosningum og tvo hreppsnefndarfulltrúa af sjö. Elvar Eyvindsson, núverandi varaþingmaður Miðflokksins, var oddviti listans í síðustu kosningum.

Listi Sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra:
1. sæti: Anton Kári Halldórsson
2. sæti: Elín Fríða Sigurðardóttir
3. sæti: Guðmundur Viðarsson
4. sæti: Harpa Mjöll Kjartansdóttir
5. sæti: Angelia Fjóla Vilhjálmsdóttir
6. sæti: Baldur Ólafsson
7. sæti: Esther Sigurpálsdóttir
8. sæti: Kristján Fr. Kristjánsson
9. sæti: Ingveldur Anna Sigurðardóttir
10. sæti: Bragi Ágúst Lárusson
11. sæti: Ragnheiður Jónsdóttir
12. sæti: Páll Eggertsson
13. sæti: Heiða Björg Scheving
14. sæti: Svavar Hauksson

Fyrri greinKaramellubomba
Næsta greinStórt tap á heimavelli