Annríki hjá björgunarsveitum í gær

Töluvert annríki var hjá björgunarsveitum í gær og var Flugbjörgunarsveitin á Hellu meðal annars kölluð út vegna tveggja slysa á hálendinu.

Síðdegis í gær var sveitin kölluð út vegna vélsleðaslyss við Hrafntinnusker. Þar fór sleðamaður fram af snjóhengju og slasaðist alvarlega. Maðurinn komst fljótt um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, áður en björgunarsveitarmenn komu á staðinn.

Á leiðinni hittu björgunarsveitarmenn ökumann jeppa í vandræðum við Sigöldu og aðstoðuðu hann við að losa bílinn úr skafli.

Þegar björgunarsveitin var á heimleið aftur í gærkvöldi var hún aftur kölluð út ásamt Eyvindarmönnum á Flúðum vegna bílslyss í Jökulheimum. Þar hafði jeppi farið fram af snjóhengju. Farþegi í bílnum slasaðist á baki og fluttu björgunarsveitarmenn hann til móts við sjúkrabíl.

Björgunarsveitirnar fengu fleiri hjálparbeiðnir í gær. Meðal annars var leitað að 4 ára dreng á Selfossi sem fannst heill á húfi.

Fyrri greinHamar í toppmálum
Næsta greinEldur í sinu við Sýrlæk