Annríki hjá björgunarsveitum í dag

Björgunarsveitarbílar á Króksleið í kvöld. Ljósmynd/Rúnar Steinn Gunnarsson

Mikið hefur verið að gera hjá björgunarsveitum á Suðurlandi í dag en meðal annars hafa þær farið í útköll við Svínafellsjökul, að Fjallabaki og á Fljótshlíðarafrétt.

Í sjálfheldu við Svínafellsjökul
Á tólfta tímanum í morgun voru björgunarsveitir kallaðar út vegna ferðamanns í sjálfheldu á gönguleiðinni inn með Hafrafelli við Svínafellsjökul. Maðurinn sem er á sjötugsaldri hafði farið út af gönguleiðinni og niður nokkurn bratta og hrasaði þar í skriðum og féll nokkra metra. Hann sat fastur á neðstu syllunni rétt fyrir ofan lónið við Svínafellsjökul.

Björgunarsveitafólk úr Öræfum fór á staðinn og þurfti að síga niður til mannsins til að koma honum upp á öruggan hátt.  Hann hafði fengið grjót í sig og slasast á höfði. Honum var komið upp skriðurnar aftur á gönguleiðina og fylgt að sjúkrabíl, þar sem sjúkraflutningamenn hlúðu að sárum hans.

Rammvillt kona gekk rúma 20 kílómetra
Erlend göngukona varð viðskila við samferðafólk sitt að Fjallabaki eftir að hafa verið á göngu stóran part af deginum. Hún hafði ekki skilað sér þegar hópurinn safnaðist saman við rútu í Landmannalaugum seinni partinn í dag. Björgunarsveitarfólk á hálendisvakt fóru að grennslast fyrir um konuna og leitaði hennar og vísbendinga um ferðir hennar víða um svæðið. Um klukkan sjö, þegar byrjað var að skipuleggja næstu skref leitaraðgerða þá skilaði hún sér sjálf í skálann við Álftavatn. Þá kom í ljós að hún hafði verið rammvillt og hafði gengið rúma 20 kílómetra, hún var óslösuð en svöng og þreytt. Björgunarsveitarfólk aðstoðaði hana við að komast til móts við samferðafólk sitt.

Kona féll af hestbaki á Króksleið
Á svipuðum tíma og göngukonan skilaði sér við Álftavatn barst útkall til björgunarsveita á Suðurlandi vegna konu sem fallið hafði af hestbaki á Króksleið rétt neðan Þverárbotna. Hún var á leiðinni af Fljótshlíðarafrétti yfir á Rangárvallaafrétt. Björgunarsveitafólk kom á staðinn og hlúði að henni og stuttu seinna komu sjúkraflutningamenn í samfloti við björgunarsveit. Ákveðið var að flytja konuna með björgunarsveitarbíl til móts við sjúkrabíl og nú um klukkan ellefu voru bílarnir rétt ókomnir að sjúkrabílnum.

Á meðan þessi verkefni voru í gangi voru tvær konur fastar í bíl á eyri í ánni Syðri-Ófæru og komust ekki í land. Þær biðu eftir hálendisvaktarhópi sem var á leiðinni til þeirra.

Fyrri greinStokkseyrarvörnin raknaði upp
Næsta greinHrafnhildur Hanna til Frakklands