Annir hjá Selfosslöggunni

Lögreglumenn frá Selfossi höfðu í dag afskipti af nokkrum eigendum ökutækja í Hveragerði sem höfðu lagt bifreiðum sínum þannig að hluti þeirra var á gangstétt og hömluðu þannig för gangandi og sérstaklega þeirra sem eru á ferð með barnavagn eða í hjólastól.

Bíleigendur eru hvattir til að leggja ekki ökutækjum sínum á gangstéttum. Lögregla mun fylgjast með lagningu ökutækja á næstunni og þeir sem reynast brotlegir verða sektaðir.

Einnig mun verða fylgst með ökuhraða í þéttbýlisstöðum. Á Laugarvatni var einn ökumaður kærður í dag fyrir hraðakstur í þéttbýlinu og hann sektaður á staðnum.

Auk þessa hafa lögreglumenn haft afskipti af fjölda ökumanna í tengslum við ljósabúnað bifreiða og eftirvagna.

Fyrri greinÍstak bauð lægst í breikkun Hellisheiðar og Kamba
Næsta greinÁrborg og Stokkseyri töpuðu