Annasöm helgi hjá slökkviliðinu

Síðasta helgi var annasöm hjá slökkviliði BÁ á Selfossi en átta útköll bárust frá fimmtudagsmorgni til sunnudagsmorguns.

Flest útköllin voru vegna sinubruna sl. laugardag þegar Selfyssingar fögnuðu síðbúnum þrettánda. Sinueldar loguðu í Hólahverfi, í landi Fossmúla og við íþróttahúsið Iðu. Upptök eldanna má rekja til flugeldaskotgleði Selfyssinga.

Á laugardagskvöld stóðu slökkviliðsmenn brennuvakt við þrettándabrennuna á Selfossi og síðla kvölds barst beiðni frá lögreglu um að slökkt yrði í glæðum eftir brennuna.

Eftir litla hvíld á laugardeginum barst síðan útkall kl. 4:25 aðfararnótt sunnudags þar sem kviknað var í spennistöð við Ljósafossskóla. Þrettán slökkviliðsmenn fóru á staðinn og slökktu eldinn sem var í strengjum og húsi.

Auk þessa slökktu slökkviliðsmennirnir eld í sinu við Syðri-Brú í Grímsnesi á fimmtudagskvöld og reykræstu íbúð og stigagang við Fossheiði á fimmtudagsmorgun.

Fyrri greinMæðgin tóku við verðlaunum
Næsta greinLaugdælir úr leik