Annasöm helgi að baki

Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Talsvert mikill erill var hjá lögreglunni á Hvolsvelli um verslunarmannahelgina. Banaslys á Suðurlandsvegi á sunnudag setti mikinn skugga á helgina.

Um helgina voru sextán ökumenn stöðvaðir vegna hraðaksturs og fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur. Auk slyssins á Suðurlandsvegi í Skaftárhreppi, þar sem tvær stúlkur létust, urðu þrjú önnur umferðaróhöpp í umdæminu þessa helgi og voru meiðsli í þeim minniháttar.

Gríðarmikil umferð var í gegnum umdæmið þessa helgi í tengslum við Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn og einnig í tengslum við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en aldrei hefur verið eins mikill bílafjöldi við Landeyjahöfn og á sunnudag. Greiðlega gekk þó að koma þjóðhátíðargestum á milli lands og eyja, en nokkuð var einnig flogið á milli frá Bakkaflugvelli.

Tvær hátíðir voru haldnar í umdæminu, Edrúmót SÁÁ við Laugaland og svo Kotmót í Fljótshlíð og gengu þær vel fyrir sig.
Fyrri greinSumar á Selfossi hefst í dag
Næsta greinNöfn stúlknanna sem létust