Annasamt kvöld hjá slökkviliðinu á Selfossi

Slökkviliðið við störf á Selfossi í kvöld. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Slökkviliðsmenn á Selfossi hafa haft í nægu að snúast í kvöld og farið í að minnsta kosti fjögur útköll það sem af er kvöldi.

Á níunda tímanum kviknaði í garðskúr fyrir aftan raðhús í Landahverfinu á Selfossi, líklega af völdum flugelda, og tvö útköll hafa orðið vegna skotterta, þar sem slökkva þarf í leifum þeirra svo að eldur berist ekki í gróður.

„Í Landahverfinu kviknaði í garðskúr og eldurinn breiddist hratt út í skjólvegg og heitan pott sem voru þarna fyrir aftan hús, en eldurinn barst ekki í húsið. Slökkvistarfi er lokið og það eru einhverjar skemmdir þarna,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Síðan var verið að kalla okkur til núna rétt í þessu til þess að slökkva í þrettándanbrennunni. Það er að hvessa og það er talsverð hætta á að glóð frá brennunni berist í gróður þarna á svæðinu,“ sagði Lárus ennfremur.

Fyrri greinHamar/Þór tapaði uppgjöri botnliðanna
Næsta greinJólasveinarnir kvöddu með hvelli