Annar eldsvoði á Fossveginum

Talsverðan reyk lagði frá geymslunni. Ljósmynd/sunnlenska.is

Annan daginn í röð kviknaði eldur í sama fjölbýlishúsinu við Fossveg á Selfossi, að þessu sinni í ruslageymslu.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn um klukkan hálf fjögur í dag og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila á vettvang.

Reykkafarar fóru inn í ruslageymsluna og réðu niðurlögum eldsins á skammri stund.

Ekki náðist í lögregluna á Suðurlandi við vinnslu fréttarinnar en hún mun hafa eldsupptökin til rannsóknar.

Í gærmorgun var tilkynnt um eld í geymslu í sama húsi og barst þá talsverður reykur um kjallara hússins og upp á efri hæðir.

Viðbragðsaðilar á vettvangi á Fossveginum í dag. Ljósmynd/sunnlenska.is
Fyrri greinMöndlað með módernisma
Næsta greinFlóahreppur hafnaði erindi Árborgar