Í hádeginu í gær bárust Neyðarlínunni boð um veikindi á Fimmvörðuhálsi sem sunnlenska.is hefur þegar greint frá. Þeirri aðgerð lauk um klukkan 18 en björgunarfólk var varla komið í bækistöð þegar önnur aðstoðarbeiðni barst af Fimmvörðuhálsi.
Þar voru tveir göngumenn á ferðinni skammt frá Baldvinsskála. Annar þeirra hafði meiðst á fæti og var ókleift að halda áfram. Þeir slógu upp tjaldi til að veita sér skjól á meðan þeir biðu björgunar.
Rétt fyrir klukkan 22 voru fyrstu björgunarmenn komnir að tjaldinu og tóku ferðamenn inn í bíl til sín og tóku saman tjald þeirra.
Þeir voru svo fluttir niður af hálsinum og skutlað í gistingu þar sem þeir töldu sig ekki þurfa frekari aðhlynningu og skildi björgunarfólk við þá rétt fyrir miðnætti.

