Anna Margrét sigraði upplestrarkeppnina

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk var haldin á Stokkseyri fimmtudaginn 12. mars. Fimmtán nemendur tóku þátt sem komu frá Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Grunnskólanum í Hveragerði, Grunnskóla Þorlákshafnar, Sunnulækjarskóla og Vallaskóla.

Dómararnir höfðu að orði að sjaldan hefði keppnin verið eins jöfn, en allir lesarar stóðu sig með miklum sóma.

Í fyrsta sæti var Anna Margrét Guðmundsdóttir úr Sunnulækjarskóla, í öðru sæti Sigurbjörg Guðmundsdóttir úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri og í þriðja sæti var Hildur Helga Einarsdóttir úr Vallaskóla.

Haukur Þór Ólafsson úr Vallaskóla fékk sérstök aukaverðlaun fyrir vandaðan lestur á ljóði eftir Anton Helga.

Keppnin var samstarfsverkefni skólaþjónustu Árborgar og skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og hafði Ólína Þorleifsdóttir, kennsluráðgjafi, yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd.

Fyrri greinHamar auðveld bráð fyrir Hauka
Næsta greinHamar lagði Stokkseyri