Angraði gesti með káfi og rausi

Ölvaður karlmaður gekk berserksgang á Hótel Örk um helgina. Auk þess angraði hann gesti með káfi og rausi.

Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér vímuna. Við yfirheyrslu bar hann við minnisleysi og kannaðist ekki við sakarefnið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Talsverður erill var hjá lögreglumönnum á Selfossi um helgina. Nokkur útköll voru vegna skarkala í íbúðarhúsum sem gengu svo langt að var öðrum íbúum til ama. Lögreglumönnum tókst að lægja öldurnar og koma á skikki. Ýmis önnur útköll voru vegna ýmiss konar aðstoðar við borgarann sem áttu í bráðum veikindum og margs konar vandræðum sem aðrir voru ekki til að leysa úr.