Andrés Ingi til liðs við Pírata

Andrés Ingi Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Andrés Ingi Jónsson, alþingismaður frá Hjarðarbóli í Ölfusi, hefur ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Pírata og gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í mars.

„Þetta var ekki einföld ákvörðun og ég tók hana eftir mikla yfirlegu. Ég vil vera hluti af hóp sem er hægt að treysta til að taka djarfar ákvarðanir og tel að innan þingflokks Pírata muni hugsjónum mínum vera best borgið. Frá því að ég hóf störf sem þingmaður hef ég alltaf unnið vel með Pírötum á þingi. Það er sama hvort litið er á aðgerðir í kringum uppreist æru, baráttuna fyrir réttindum hælisleitenda eða almennt samstarf okkar í fastanefndum þingsins – hugmyndafræði okkar hefur átt vel saman,“ segir Andrés Ingi.

Andrés var þingmaður Vg í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, en sagði sig úr flokknum og hefur starfað sem þingmaður utan flokka.

Þingflokkur Pírata samþykkti einróma að bjóða Andrés Inga velkominn í hópinn á þingflokksfundi í morgun. Í tilkynningu frá Pírötum segir að Andrés sé gríðarlega öflugur þingmaður sem hefur áorkað miklu einn síns liðs og er því mikill fengur fyrir þingflokk Pírata.

Fyrri greinReynir og Brynja fyrstu íbúar Kambalandsins
Næsta greinStyrmir Snær valinn í A-landsliðið