Andlát: Sigurður Sigmundsson

Sigurður Sigmundsson, bóndi og blaðamaður frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, er látinn, 75 ára að aldri. Hann lést í gær á heimili sínu að Vesturbrún á Flúðum.

Sigurður fæddist að Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi þann 16. mars árið 1938 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Sigmundur Sigurðsson, bóndi og fyrrverandi oddviti, og Anna Jóhannesdóttir húsfreyja. Systkin Sigurðar eru Alda, f. 10.4. 1930, d. 18.11. 1931, Jóhannes, f. 18.11. 1931, Alda Kristjana, f. 17.6. 1933, Sigurgeir Óskar, f. 16.3. 1938, d. 9.2. 1997 og Sverrir, f. 13.9.1944.

Sigurður útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1959. Hann var við nám og störf í Bandaríkjunum 1962-1963. Hann vann meðal annars sem bóndi, tamningamaður og ritstjórnarfulltrúi hjá tímaritinu Eiðfaxa 1980 til 1997. Sigurður var afkastamikill ljósmyndari. Hann sótti ljósmyndanámskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur 1984 og tók margar myndir af hestum sem vöktu athygli og skilur eftir sig mikið safn af ljósmyndum. Þá hlaut hann meðal annars ljósmyndaverðlaun Morgunblaðsins sex sinnum á árunum 1994 til 1998 og heiðursverðlaun hestamanna árið 2009 fyrir brautryðjendastarf og langa og dygga þjónustu við hestaíþróttina.

Sigurður starfaði sem fréttaritari Morgunblaðsins frá árinu 1972 og síðustu ár var hann fréttaritari og ljósmyndari Sunnlenska fréttablaðsins í uppsveitunum. Sigurður sinnti einnig ýmsum félagsstörfum og sat meðal annars í stjórn hestamannafélagsins Smára 1963-1973. Sigurður var ókvæntur og barnlaus.

Starfsfólk Sunnlenska færir Sigurði bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og vel unnin störf og sendir fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Fyrri grein„Þetta var nú bara talin sérviska“
Næsta greinMenningaminjar liggja undir skemmdum