Andlát: Már Sigurðsson

Már Sigurðsson frá Geysi Haukadal, kennari og ferðamálafrömuður, lést á heimili sínu þann 3. maí síðastliðinn.

Már var fæddur 28. apríl 1945. Foreldrar hans voru Sigrún Bjarnadóttir frá Bóli í Biskupstungum og Sigurður Greipsson skólastjóri og hótelhaldari á Geysi í Haukadal.

Már útskrifaðist 1964 frá Íþróttaskóla Íslands á Laugavatni og 1968 útskrifaðist hann úr Danmarks Höjskole for Legemsövelser í Danmörku.

Frá útskrift starfaði hann sem íþróttakennari á Hólum í Hjaltadal, Stykkishólmi, Fáskrúðsfirði, Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og farkennari á vegum HSK. Árið 1969 hóf hann starf sem kennari við grunnskólann á Laugalandi í Holtum, Rangárvallasýslu og starfaði þar í 25 ár.

Már hóf uppbyggingu á ferðaþjónustu við Geysi í Haukadal árið 1972 og helgaði sig uppbyggingunni við fjölskyldufyrirtækið Hótel Geysi frá árinu 1993 og var mikill frumkvöðull á sviði ferðaþjónustu.

Már hlaut riddarakrossinn árið 2005 fyrir frumkvæði í uppbyggingu ferðaþjónustu.

Eftirlifandi eiginkona Más er Sigríður Vilhjálmsdóttir og eiga þau þrjú börn og sex barnabörn.

Már verður jarðsunginn frá Skálholtskirkju 19. maí nk. klukkan 15:00.

Fyrri greinAri Trausti: Vor í lofti
Næsta greinÓk ölvaður og próflaus gegn einstefnu