Andlát: Harpa Elín Haraldsdóttir

Harpa Elín Haraldsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal, er látin 45 ára að aldri. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi síðastliðinn laugardag, þann 1. nóvember.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í dag.

Harpa fæddist 28. janúar 1980, dóttir Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðings og Haralds Inga Haraldssonar myndlistarmanns. Fósturfaðir Hörpu er Sigurgeir Már Jensson, heilsugæslulæknir í Vík í Mýrdal.

Rúmri viku fyrir andlát sitt tók Harpa á móti Menningarverðlaunum Suðurlands 2025 en hún hlaut þau fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til menningar og samfélags í Mýrdalshreppi.

Í rökstuðningi dómnefndar, sem vitnað var til við afhendinguna, er Hörpu lýst sem „ótrúlegum drifkrafti“ í samfélaginu. „Með sinni einstöku orku, jákvæðni og góðvild hefur hún haldið uppi menningarstarfi og samfélagslegri virkni af ótrúlegum krafti“.

Þegar Harpa flutti aftur heim í Mýrdalinn árið 2021 til þess að taka við forstöðu Kötlusetursins eftir 17 ára búsetu erlendis var hún Sunnlendingur vikunnar.

Eftirlifandi eiginmaður Hörpu er Pablo Javier Cárcamo Maldanado frá Síle. Sonur þeirra er León Ingi, f. 2015.

Fyrri greinRafmagnslaust í hluta Bláskógabyggðar aðfaranótt föstudags
Næsta greinAlmannahagur eða einkavinavæðing