Andlát: Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, blaðamaður og listmálari frá Úthlíð í Biskupstungum, lést í gær, 79 ára að aldri.

Gísli fæddist í Úthlíð í Biskupstungum 3. desember 1930 og var elstur í hópi sjö systkina. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík árið 1953 og starfaði fyrst eftir það sem bankamaður hjá Landsbanka Íslands á Selfossi. Árið 1955 sneri hann sér hins vegar að blaðamennsku sem var aðalstarfsvettvangur hans allt upp frá því. Fyrst starfaði Gísli á tímaritinu Samvinnunni, sem Samband íslenskra samvinnufélaga gaf út, en árið 1959 varð hann ritstjóri Vikunnar og starfaði þar til ársins 1967. Það ár var hann ráðinn til að sjá um Lesbók Morgunblaðsins og starfaði þar næstu 33 árin eða þar til hann lét af störfum í árslok 2000, þá sjötugur að aldri. Í Lesbókina skrifaði Gísli mikinn fjölda greina, meðal annars um arkitektúr og skipulagsmál, bíla, umhverfismál og myndlist, og var áhrifamaður í þeim skrifum sínum.

Gísli var afkastamikill listmálari og hélt fjölda sýninga um dagana. Myndefni sitt sótti hann gjarnan í íslenska þjóðtrú og bændamenningu og margar myndanna eru frá æskuslóðum hans í Biskupstungum. Jafnframt þessu skrifaði Gísli nokkrar bækur og tók myndir í þær. Þar má nefna Árbók Ferðafélags Íslands 1998 sem fjallaði um fjallajarðir og framafrétt Biskupstungna, sem voru æskuslóðir hans. Bækurnar Seiður lands og sagna komu svo út í aldarbyrjun og vöktu athygli. Þar var í fjórum bindum fjallað um ýmsar söguslóðir og áfangastaði víðsvegar um landið. Bókin Ljóðmyndalindir með ljóðum og máluðum myndum Gísla kom út árið 2007.

Eftirlifandi eiginkona Gísla er Jóhanna Bjarnadóttir og eignuðust þau tvö börn, Bjarna Má og Hrafnhildi.

Fyrri greinLýsi eyðir lykt
Næsta greinBrenndist á hraunmola