And­lát: Böðvar Páls­son

Böðvar Páls­son, bóndi og fyrr­ver­andi odd­viti á Búr­felli í Gríms­nesi, lést á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands á Sel­fossi síðastliðinn laug­ar­dag, 81 árs að aldri.

Böðvar var fædd­ur á Búr­felli 11. janú­ar 1937, son­ur hjón­anna Páls Diðriks­son­ar, bú­fræðings og bónda þar, og Lauf­eyj­ar Böðvars­dótt­ur hús­freyju.

Hann stundaði nám í Íþrótta­skól­an­um í Hauka­dal og lauk lands­prófi frá Héraðsskól­an­um að Laug­ar­vatni árið 1955. Eft­ir það vann hann sem skurðgröf­u­stjóri á sumr­in og við gripa­hirðingu að vetr­um. Stofnaði ný­býlið Búr­fell 3 úr hálfri jörðinni Búr­felli 2 árið 1964 og hóf þar bú­skap. Hann bjó á Búr­felli alla sína ævi.

Böðvar var virk­ur í fé­lags­mál­um. Hann var formaður Ung­menna­fé­lags­ins Hvat­ar og fram­kvæmda­stjóri fé­lags­heim­il­is­ins Borg­ar. Hann var kjör­inn í hrepps­nefnd Gríms­nes­hrepps á ár­inu 1972 og átti þar sæti í 32 ár, þar af 14 ár sem odd­viti. Hann var jafn­framt sýslu­nefnd­armaður og átti sæti í héraðsnefnd. Þá var hann lengi hrepp­stjóri. Böðvar var formaður búnaðarfé­lags­ins í sinni sveit og full­trúi á aðal­fund­um Stétt­ar­sam­bands bænda. Hann sat í stjórn Stétt­ar­sam­bands­ins og sat fyr­ir hönd þess í ýms­um nefnd­um og ráðum, meðal ann­ars í Öldrun­ar­ráði Íslands og stjórn sjúkra­stofn­un­ar­inn­ar Skjóls þar sem hann var formaður.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Böðvars er Lísa Thomsen, sem starfaði lengst af sem hjúkr­un­ar­rit­ari á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands. Þau eignuðust fimm börn, Sig­urð, Lauf­eyju, Bryn­dísi Ástu, Önnu Ýri og Láru.

Fyrri greinMikilvægur sigur hjá Hamri
Næsta grein„Þurfum að mæta með sjálfstraust og klárir í allt“