Ánægjulegt að sjá kraftinn í samfélögunum á Suðurlandi

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á ferðalagi sínu á Flúðum, ásamt fulltrúum sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga heimsótti nokkur sveitarfélög á Suðurlandi í síðustu viku. Sveitarfélögin sem nefndin heimsótti voru Sveitarfélagið Árborg, Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Rangárþing ytra og Rangárþing eystra.

Markmið ferðarinnar var að ræða við sveitarstjórnarfólk og starfsfólk sveitarfélaganna um stöðu og málefni sveitarfélaganna. Jafnframt var farið í vettvangsferðir þar sem stofnanir sveitarfélaga og fyrirtæki á svæðinu voru heimsótt

„Það er ánægjulegt að sjá þann mikla kraft sem er á samfélögunum á Suðurlandi. Víðast hvar er um kröftuga uppbygging innviða að ræða og afar jákvæða þróun tekna sveitarfélaganna með auknum umsvifum,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

„Sveitarfélögin glíma vissulega við ýmsar áskoranir og má þar nefna uppbyggingu nýrra íbúðahverfa vegna fjölgunar íbúa. Jákvætt er þó að það er af sem áður var að sveitarfélög börðust gegn fólksfækkun og byggðavanda sem því fylgdi. Við sjáum jafnframt að samvinna sveitarfélaga á svæðinu er með miklum ágætum og það var að heyra að hugsanleg yrðu sameiningarkostir ræddir milli sumra sveitarfélaga innan ekki svo langs tíma,“ sagði Guðmundur að lokum.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er einn af megintekjustofnum sveitarfélaga, en um 14% af skatttekjum sveitarfélaga koma frá sjóðnum. Til Suðurlands runnu alls 9 milljarðar króna úr Jöfnunarsjóði á síðasta ári.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs er skipuð til fjögurra ára að afloknum sveitarstjórnarkosningum en eini Sunnlendingurinn í nefndinni er Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Fyrri greinDatt úr stúku og handleggsbrotnaði
Næsta greinSpænsk skytta til liðs við Selfoss