„Ánægjuleg tímamót“

1. Skóflustungur að nýrri aðstöðu RARIK á Suðurlandi tóku þau (frá vinstri til hægri) Guðlaugur Valtýsson, deildarstjóri framkvæmdasviðs Suðurlandi, Guðrún Arnbjörg Óttarsdóttir, skrifstofustjóri Suðurlandi, Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri og Lárus Einarsson, deildarstjóri rekstrarsviðs á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Í dag tóku forstjóri RARIK og yfirmenn fyrirtækisins á Suðurlandi fyrstu skóflustungu að byggingu nýrrar svæðisskrifstofu RARIK á Suðurlandi sem mun rísa við Larsenstræti 4 á Selfossi.

„Þetta verkefni hefur átt sér langan aðdraganda en það er orðið mikilvægt að bæta aðstöðu starfsmanna okkar í Árnessýslu. Hér hefur verið mikil uppbygging á undanförnum árum og má sem dæmi nefna að nýjar heimtaugar á Suðurlandi og reyndar mest í Árnessýslu, hafa verið fleiri á undanförnum árum en samanlagt á öllum öðrum starfssvæðum RARIK. Jafnvel eru dæmi um að þær hafi verið tvöfalt fleiri. Starfsemi RARIK hefur verið á þremur stöðum á Selfossi, en með þessum byggingum næst að sameina starfsemina í Árnessýslu á einn stað,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK.

Nýja svæðisskrifstofan og aðstaðan við hana mun auka hagræði í rekstri RARIK á Suðurlandi og jafnframt bæta vinnuskilyrði starfsmanna fyrirtækisins á svæðinu. Miðað er við að byggingarframkvæmdir verði boðnar út á vormánuðum og stefnt er að því að nýja svæðisskrifstofan verði tekin í notkun á árinu 2022.

Tvær byggingar og athafnasvæði
Um er að ræða tvær byggingar samtals 1.559,9 m2 að stærð. Annars vegar 1.397 m2 húsnæði fyrir lager, bílgeymslu, skrifstofuhluta og starfsmannaaðstöðu og hins vegar 167,2 m2 aðstöðuhús þar sem verður geymsla á búnaði útiflokka, varaaflstöð og hjólageymsla fyrir starfsmenn auk athafnasvæðis fyrir grófvörur á bakhluta lóðarinnar. Í nýju svæðisskrifstofunni við Larsenstræti verður aðstaða fyrir 24 starfsmenn að jafnaði en gert er ráð fyrir að þar geti allt að 35 manns af skrifstofu og útiflokkum starfað í einu.

Lóðin verður malbikuð með bílastæðum fyrir starfsmenn og gesti meðfram norður og austurhlið hússins. Aðkoma inn á lóðina verður um sameinginlega innkeyrslu að norðanverðu og útkeyrsla að sunnanverðu. Lóðin verður girt af og lokað inn á athafnasvæði með rafknúnum hliðum.

PRO-Ark ehf eru aðalhönnuðir verkefnisins, burðarvirkis- og lagnahönnun annaðist Verkfræðistofa Reykjavíkur, Raflagnahönnun annaðist Dolli Raflagnahönnun og Brunahönnun slf. sá um brunahönnun.

Stöðumynd af mannvirkinu við Larsenstræti 4.
Fyrri greinFyrri áfanga brúarsmíðinnar lokið
Næsta greinFrábær liðsheild Þórsara olli Stjörnuhrapi