„Alvöru heilsudjamm í Hveragerði“

Frá Sveita-samfloti í sundlauginni Laugaskarði. Ljósmynd/Guðrún Kristjánsdóttir.

Laugardagskvöldið 13. október verður haldið Sveita-samflot í sundlauginni í Laugaskarði í Hveragerði.

Er þetta í sjötta skipti sem Sveita-samflot er haldið í Laugaskarði. Líkt og áður verður sundlaugin sérstaklega hituð fyrir samflotið og verður því einstaklega hlý og notaleg.

Sveita-samflotið er samstarfsverkefni Systrasamlagsins, Flothettunnar og Hveragerðisbæjar.

„Þótt vissulega sé gaman að fljóta víða fullyrða ansi margir sem hafa fylgt okkur lengi og flotið víða að fátt jafnast á við Sveita-Samflot Systrasamlagsins í Laugaskarði,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir hjá Systrasamlaginu í samtali við sunnlenska.is.

„Við ákváðum að verða við ósk margra og skella í eitt Sveita-Samflot næsta laugardag í samvinnu við Hvergagerðisbæ,“ segir Guðrún og bætir því við að þau stefni svo á annað Sveita-samflot með hækkandi sól. Stefnan sé að vera með tvö til þrjú Sveita-samflot í Laugaskarði á ári.

„Sveita-Samflotin eru í senn tær skemmtun og upplifun þar sem flestir ná að hverfa á vit innri ævintýra og endurnýja orkuna. Allt sem þarf er gott rými og ró. Notalegt flot í Laugaskarði er ein besta leiðin til þess,“ segir Guðrún.

„Fólki líður svo vel eftir Sveita-Samflotið, sérstaklega ef umgjörðin er góð og vatnið er notalegt. Þær Þórey Viðars tónheilari og Thelma Björk flotþerapisti sem hafa fylgt okkur frá upphafi ætla að halda fallega utan um hópinn í samvinnu með okkur.

„Sumsé næsta laugardagskvöld verður alvöru heilsudjamm í Hvergagerði sem stendur frá klukkan sjö til níu. Við eigum nokkur pláss laus og viljum endilega hvetja Sunnlendinga til að nýta sér,“ segir Guðrún að lokum.

Allar nánari upplýsingar um Sveita-samflotið má finna hér.

Fyrri greinTímabilið fer vel af stað hjá Hamri
Næsta greinBúið að opna Hellisheiði