„Alveg að springa úr stolti“

Fyrsta barn ársins 2013 á Íslandi fæddist í Hreiðrinu á Landspítalanum kl. 5:34 á nýársnótt. Það var myndarleg stúlka, dóttir Berglindar Hákonardóttur og Einars Viðars Viðarssonar á Hvolsvelli.

Stúlkan er þriðja barn Berglindar og Einars, en þau eiga fyrir Hákon Kára, 8 ára og Védísi Ösp, 4 ára. Nýársstúlkan var 14 merkur og 49,5 sentimetrar.

Berglind var sett 4. janúar og stefndi að því að ná framyfir áramótin með fæðinguna. „Ég stefndi alls ekki á að eignast fyrsta barn ársins, það var bara skemmtilegt að það skyldi verða þannig. Ég ætlaði hins vegar að ná framyfir áramótin en eldri systkini hennar komu aðeins á undan áætlun svo að ég var við öllu búin,“ sagði Berglind í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta gekk alltsaman vel. Við horfðum á Skaupið og skutum svo upp flugeldum og komum börnunum í háttinn. Við vorum komin til Reykjavíkur um klukkan tvö og hún kom í heiminn rúmum þremur klukkutímum síðar,“ segir Berglind.

„Fjölskyldan er alveg í skýjunum með þetta og sérstaklega systkini hennar sem eru alveg að springa úr stolti,“ sagði Berglind að lokum.

Fyrri greinÁtta í framboði hjá Framsókn
Næsta greinFyrsta barn ársins á HSu