Alvarlegum slysum fjölgaði mest á Suðurlandi

Alvarlegum umferðarslysum á Suðurlandi fjölgaði um 55% árið 2011 miðað við árið á undan. Þetta kemur fram í nýútkominni slysaskýrslu Umferðarstofu.

Þar segir að fjöldi alvarlegra tilvika slasaðra í umferðinni hafi farið úr 18 árið 2010 í 28 í fyrra. Stærsti hluti þessara slysa varð utanbæjar á þjóðvegum, eða tuttugu talsins en voru sextán árið áður.

Samkvæmt skýrslunni er Suðurlandsvegur frá Sandskeiði að vegamótum Þrengslavegar mesti slysastaður á landinu miðað við hvern kílómetra. Næst flest óhöppin urðu á kaflanum frá Þrengslavegamótum og austur að hringtorginu við Hveragerði. Þar á eftir kemur hringvegurinn frá hringtorginu í Hveragerði að gatnamótum Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar.

Fyrri greinÞyrlan flutti slasaða á sjúkrahús
Næsta greinFer dræmt af stað