Fjórir alvarlega slasaðir eftir árekstur á Skeiðarársandi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hópslysaáætlun á Suðurlandi hefur verkið virkjuð vegna bílslyss sem varð um kl. 14:00 á Skeiðarársandi þar sem tveir bílar með níu manns innanborð skullu saman.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlið og aðgerðastjórn á Selfossi hafa tekið til starfa og búið er að kalla út tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar.

Kl. 14:52: Fyrstu viðbragðsaðilar eru nýlentir á vettvangi. Þjóðvegi 1 er lokað við Kirkjubæjarklaustur og svo austan við vettvang við Skaftafell. Ekki er vitað hvenær vegurinn opnar aftur en hált er og hvasst á vettvangi.

Kl. 17:45: Í bílunum voru erlendir ferðamenn. Fjórir slösuðust alvarlega og fimm eru minna slasaðir. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang og fluttu 7 manns á sjúkrahús. Tveir farþegar voru fluttir í bæinn í sjúkrabílum.

Kl. 17:48: Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri og mun þar sinna sautján farþegum úr rútu sem komu að slysinu.

Kl. 18:20: Vinnu á vettvangi er að ljúka og verið er að opna fyrir umferð um Suðurlandsveg.

Kl. 21:30: Lögreglan leitar að vitnum að slysinu. Þeir sem telja sig geta varpað ljósi á aðdraganda slyssins eru beðnir um að senda lögreglunni skilaboð á Facebook eða í tölvupósti á sudurland@logreglan.is.

Fyrri greinFlúðaskóli fékk Menntaverðlaun Suðurlands fyrir stórkostlegt leiklistarstarf
Næsta greinÞórsarar töpuðu á Akureyri