Alvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut

Alvarlegt umferðarslys varð í dag um kl. 14:00 Biskupstungnabraut, skammt austan við Borg í Grímsnesi. Þar lentu saman fólksbifreið sem ekið var til norðausturs og jepplingur sem var ekið til suðvesturs.

Ökumaður fólksbifreiðarinnar, sem var einn í bifreiðinni, slasaðist alvarlega og var fluttur með þyrlu á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Hjón í jepplingnum voru flutt með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar. Þaðan voru þau flutt áfram á Slysadeild Landspítala. Hjónin eru ekki talin vera alvarlega slösuð.

Mikill viðbúnaður var á vettvangi. Til viðbótar lögreglu og sjúkraliði komu að verkefninu klippulið frá Brunavörnum Árnessýslu, fulltrúi rannsóknarnefndar samgönguslysa og aðrir sérfræðingar sem lögreglan kallar til sér til aðstoðar við rannsókn. Ekki liggur fyrir hver aðdragandi slyssins var en vettvangsrannsókn væntanlega leiðir það í ljós.

Biskupstungnabraut hefur verið lokað vegna slyssins en verður opnuð innan klukkustundar. Rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi biður þá sem hugsanlega voru vitni að aðdraganda slyssins og eða slysinu sjálfu að hafa samband í síma 444 2010.

Fyrri greinÞorlákshöfn í 4G samband hjá Símanum
Næsta greinStraumlaust í hluta Mýrdalshrepps