Alvarlegt slys í Reynisfjöru

Í Reynisfjöru. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Alda hreif erlendan ferðamann á haf út í Reynisfjöru um klukkan 16:40 í dag. Björgunarsveitir á Suðurlandi og í Vestmanneyjum voru kallaðar til vegna slyssins auk þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem náði manninum úr sjónum laust fyrir klukkan 18.

Lögreglan hefur ekki gefið upplýsingar um líðan mannsins en hann var á ferð með eiginkonu sinni í stærri hópi í skipulagðri ferð. Búið er að kalla til áfallateymi Rauða kross Íslands til þess að hlúa að fólki úr hópnum.

Rannsókn á tildrögum slyssins er hafin og veitir lögreglan ekki frekari upplýsingar að sinni.

Fyrri greinOpnunarhátíð listahátíðarinnar Hafsjós
Næsta greinÞrenna Lovera skaut Selfossi í undanúrslitin