Alvarlegt slys á Sólheimajökli

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á frá Hellu að Vík og ásamt undanförum af höfuðborgarsvæðinu voru boðaðar út um klukkan 13:45 í dag vegna slyss á Sólheimajökli.

Þar slasaðist karl­maður al­var­lega þegar hann féll fjörutíu metra niður brekku aust­an við jök­ul­inn. Hann hlaut mikla áverka á höfði og víðsvegar um líkamann. Bera þurfti manninn nokkurn spöl frá jöklinum og var hann fluttur á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann var með meðvitund þegar hann var fluttur um borð í þyrluna.

Í aðgerðinni tóku þátt ásamt tveimur lögreglumönnum, tveir sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 31 björgunarsveitarmaður frá Landsbjörgu og sex manna áhöfn þyrlu Landhelgisgæslu Íslands. Fleiri björgunarsveitarmenn höfðu verið boðaðir út og voru á leið á vettvang en boðin voru afturkölluð þegar maðurinn var kominn inn í þyrluna.

Nánast á sama tíma kom annað útkall þar sem sveitir frá Hveragerði, Selfossi, Eyrarbakka og Þorlákshöfn voru kallaðar út vegna konu sem missteig sig á gönguleið í Reykjadal í Ölfusi. Í fyrstu var grunur um að hún væri fótbrotin en síðar kom í ljós að líklega væri um slæma tognun væri að ræða. Bera þurfti konuna um 2 km leið niður dalinn til byggða til móts við sjúkrabifreið.

Alls tóku nítján björgunarsveitarmenn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg þátt í þessari aðgerð ásamt tveimur lögreglumönnum og tveimur sjúkraflutningamönnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Báðir einstaklingarnir sem lentu í slysunum voru erlendir ferðamenn.