Alvarlegt slys á Hellisheiði

Búið er að opna veginn yfir Hellisheiði eftir alvarlegt umferðarslys í Smiðjulaut í dag. Tveir fólksbílar sem ekið var úr gagnstæðum áttum lentu í hörðum árekstri kl. 15:42.

Þrír voru í öðrum bílnum en ung kona var ein á ferð í hinum bílnum og þurfti að beita klippum til þess að ná henni út. Hún er alvarlega slösuð en þeir sem voru í hinum bílnum eru ekki taldir alvarlega slasaðir.

Fjölmennt lögreglu og sjúkralið frá Selfossi og Reykjavík fór á vettvang ásamt tækjabíl slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði.

Á vettvangi er hvasst og skafrenningur og skyggni takmarkað á köflum. Suðurlandsvegur var lokaður í rúma þrjá klukkutíma á meðan lögregla og sérfræðingar rannsökuðu vettvang slyssins.

UPPFÆRT KL. 20:02

Fyrri greinSlösuð kona borin niður úr Ingólfsfjalli
Næsta greinStyrmir Dan íþróttamaður Ölfuss