Alvarlegt flugslys á Langholtsfjalli

Alvarlegt flugslys varð skammt frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi laust eftir klukkan fjögur í dag.

Fjögurra manna Cessna einkaflugvél brotlenti við sumarhúsin í Heiðabyggð, vestanmegin í Langholtsfjalli.

Fjórir voru í vélinni og flutti þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, þrjá á Landspítalann í Fossvogi. Sá fjórði var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.

Að sögn vakthafandi læknis er fólkið með alvarlega áverka en allir voru með meðvitund eftir brotlendinguna.

Sjónarvottar segja að flugvélin hafi hringsólað yfir sumarhúsahverfinu þegar hún missti afl og hrapað til jarðar. Hún rak vænginn í klettabelti og kastaðist áfram um 100 metra þar sem hún stöðvaðist.

Allar björgunarsveitir Landsbjargar í Árnessýslu voru kallaðar út vegna slyssins.

Málið er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd flugslysa, sem mætt er á staðinn, sem og hjá rannsóknarlögreglunni á Selfossi.