Alvarleg líkamsárás í sumarbústað

Alvarleg líkamsárás átti sér stað í sumarbústað í Grímsnesi aðfaranótt laugardags þegar maður var sleginn í andlitið með barefli.

Um klukkan tvö var haft samband við lögreglu og óskað eftir skjótri aðstoð vegna manns sem væri meðvitundarlaus eftir árás sem hann hafði orðið fyrir. Þarna hafði orðið ágreiningur milli tveggja manna sem leiddi til þess að annar þeirra greip til bareflis og sló hinn í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði og hlaut opin sár í andliti.

Þolandinn var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum hans.

Árásarmaðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu á lögreglustöðinni á Selfossi.

Báðir mennirnir voru ölvaðir en ekki liggur ljóst fyrir hver aðdragandi árásarinnar var en engin vitni voru að henni. Málið er í rannsókn.