Alvarleg líkamsárás í Reykjaskógi – Geysisræninginn enn á ferðinni

Um klukkan níu í gærkvöldi var hringt í lögregluna á Selfossi vegna þjófavarnakerfis sem hafði farið í gang í sumarbústað í Reykjaskógi í Bláskógabyggð.

Lögreglumenn fóru þegar áleiðis á vettvang. Á leið sinni á staðinn höfðu lögreglumenn símasamband við mann sem fór að Reykjaskógi til að huga að innbrotsþjófum.

Í símanum heyrðist að mikið gekk á, hróp og öskur á erlendri tungu. Maðurinn hafði hitt tvo útlenda menn við símahlið á veginum inn í Reykjaskóg. Hann bað þá að bíða þar til lögregla kæmi á staðinn. Skipti engum togum að mennirnir réðust á hinn með þeim afleiðingum að hann hlaut mikinn skurð í andlitið og grunur um rifbeinsbrot.

Árásarþolinn náði niður skráninganúmeri bílsins sem árásarmennirnir voru á og tegund. Lögreglumenn fundu bifrieiðina í akstri við Úthlíð og þar var akstur hennar stöðvaður. Í bifreiðinni voru tveir karlmenn frá Lettlandi.

Annar þeirra hefur tvívegis verið staðinn að gripdeild í verslunum í Árnessýslu að undanförnu. Annars vegar í ferðamannaverslunum á Geysi og Gullfossi og hins vegar í Hagkaup og Tölvulistanum á Selfossi.

Mennirnir voru handteknir og verða yfirheyrðir um meinta líkamsárás og innbrot í sumarbústaðinn. Verið er að skoða hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.

Í ljósi alvarleika málsins var þegar á frumstigi leitað eftir aðstoð sérsveitar Ríkislögreglustjóra og lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrri greinHvetja til kerfisbundinnar fornleifaskráningar í Skálholti
Næsta greinAllt tiltækt lið kallað út vegna rútuslyss