Álnavörubúðin flytur á Selfoss

Austurgarður á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Verslunin Álnavörubúðin, sem hingað til hefur verið í Hveragerði, mun opna í verslunarkjarnanum Austurgarði á Selfossi eftir áramót.

„Ég missti húsnæðið sem Álnó er í, þess vegna fór ég að skoða Selfoss og er virkilega spennt fyrir því. Það verður frábært að fara í nýtt húsnæði og virkilega spennandi að koma inn á Selfoss,“ segir Dóróthea Gunnarsdóttir, eigandi Álnó, í samtali við sunnlenska.is.

Húseigandinn sagði upp leigusamningi sínum við Álnó sem starfað hefur í Hveragerði í 38 ár. Sjálf hefur Dóróthea rekið verslunina síðan 2007. Stefnt er á að verslunin opin í Austurgarði febrúar næstkomandi.

„Búðin verður eitthvað minni, en skódeildin verður jafn stór eða jafnvel aðeins stærri. En svo verður maður bara að hlera fólkið, það er ekki hægt að vera með allt. Við reynum að vera með aðeins betra verð á sömu vöru en á höfuðborgarsvæðinu. Búðin sjálf var eins og kaupfélag, mínus matur, en það verður einhver breyting á því,“ segir Dóróthea ennfremur.

Austurgarður er við Larsenstræti 2 á Selfossi en verslunarkjarninn opnaði með pompi og prakt 31. maí síðastliðinn. Nú þegar eru verslanirnar Gina Tricot, Emil&Lína og Penninn Eymundsson í Austurgarði.

Fyrri greinFáklæddar Jórur safna fyrir Ítalíuferð