Almar opnar á Selfossi

Almar Þorgeirsson, bakari í Hveragerði, hefur keypt rekstur Vilberg-kökuhúss á Selfossi og rekur nú bakarí bæði í Hveragerði og á Selfossi.

Bergur Sigmundsson, bakari í Vestmannaeyjum, er eigandi Vilberg-kökuhúss. Í samtali við Eyjafréttir segir hann að reksturinn á Selfossi hafi gengið ágætlega en eins og hjá svo mörgum voru skuldirnar of miklar.

„Þegar við opnuðum á Selfossi voru allar innréttingar, vélar og tæki fjármagnað með erlendum lánum að stærstum hluta,“ segir Bergur í samtali við Eyjafréttir.

„Það var inni í myndinni að selja reksturinn á Selfossi og þegar Almar hafði samband og vildi kaupa, skoðuðum við málið. Samningar náðust og við lukum þessu í síðustu viku. Það voru yfirleitt um tólf manns sem unnu hjá okkur á Selfossi og verða þau að stórum hluta áfram hjá Almari.“

Almar hefur rekið bakarí í Sunnumörk í Hveragerði og hefur meðal annars státað sig af landsins ódýrustu rúnstykkjum. Þau verða í boði á Selfossi sömuleiðis, á 80 krónur stykkið.

Fyrri greinNorskunámskeið Norræna félagsins
Næsta greinVorverk um hávetur