Alma Anna ráðinn hreyfingastjóri HSu

Alma Anna Oddsdóttir, sjúkraþjálfari hefur verið ráðinn hreyfingastjóri við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, auk þess að sinna Vestmannaeyjum.

Hreyfiseðill, ávísun á hreyfingu, er nú komin á fjárlög og undanfarna mánuði hefur verið unnið að innleiðingu hans hjá heilsugæslulæknum á landsbyggðinni.

„Skjólstæðingar sem hafa sjúkdóma þar sem hreyfing er gagnleg sem meðferð eða hluti af meðferð geta fengið ávísun á hreyfiseðil hjá sínum lækni. Viðkomandi hittir þá hreyfistjóra í einu upphafsviðtali. Í viðtalinu er lagt faglegt mat á stöðu viðkomandi hvað varðar þol, getu, áhugahvöt og áhugasvið og síðan er lögð upp áætlun um hreyfingu, hvernig, hversu oft, hversu lengi, hversu mikil ákefð og svo framvegis. Þegar skjólstæðingurinn hreyfir sig samkvæmt áætluninni fer hann á heimsíðuna hreyfiseðill.is og merkir við á ákveðinn hátt sem gerir honum kleift að fylgjast með frammistöðu sinni á myndrænan hátt og gerir hreyfistjóranum kleift að fylgjast með henni einnig,“ segir Jón Steinar Jónsson, læknir, sem á sæti í verkefnisstjórn hreyfiseðlanna á landsvísu.

„Nái skjólstæðingurinn ekki markmiðum hefur hreyfistjórinn samband við hann, hvetur áfram og leitar nýrra leiða ef þörf krefur. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir að þessi meðferð nái yfir sex mánaða tímabil með möguleika á framlengingu. Læknir viðkomandi fær svo skýrslu frá hreyfistjóranum,“ segir Jón Steinar ennfremur.

Fyrri greinSelfoss jafnaði í uppbótartíma
Næsta greinNýr umdæmisstjóri VÍS á Suðurlandi