„Allur gróður mjög þurr“

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kallað út um klukkan hálfþrjú í dag vegna sinubruna við Eyrarbakkaveg, vestast á Eyrarbakka.

Eldurinn kom upp í vegkantinum og náðu slökkviliðsmenn að stöðva útbreiðslu hans hratt og vel.

„Slökkvistarfið gekk vel og þetta var ekki mjög stórt svæði sem brann. Það hefði reyndar auðveldlega getað orðið stærra því það var frekar hvasst þarna og allur gróður mjög þurr,“ sagði Þórir Tryggvason, varðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Síðdegis í gær var slökkvilið BÁ í Þorlákshöfn kallað út vegna sinubruna við golfvöllinn. Sá bruni reyndist minniháttar og gekk slökkvistarfið vel fyrir sig.

Fyrri greinFannst meðvitundarlaus í sundlauginni á Hellu
Næsta greinSelfoss úr leik eftir vítaspyrnukeppni