„Alltaf með eitthvað nýtt“

Tómas á Vor ásamt Hildi Hallgrímsdóttur, Jessicu Tómasdóttur og Sue Naidoo. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýverið opnaði indverskur pop-up veitingastaður inni á veitingastaðnum Vor á Selfossi.

„Við bjóðum upp á þrjá indverska rétti – lamb, kjúkling og svínakjöt – sem verða svolítið breytilegir. Og að sjálfsögðu naan brauð sem er algjörlega ómissandi með indverskum mat,“ segir Tómas Þóroddsson hjá Vor í samtali við sunnlenska.is.

Þetta er í annað sinn sem veitingastaður poppar-upp á Vor en í vetur buðu þau upp á tælenskan mat sem hlaut ágætis viðtökur. „Við verðum með indverska matinn fram á haustið og þá tekur eitthvað nýtt við. Það er hugmyndin – að koma alltaf með eitthvað nýtt og allar hugmyndir að nýjum pop-up veitingum eru vel þegnar.“

Lambið er geggjað
Fyrir þá sem hafa aldrei smakkað indverskan mat segir Tómas að honum sé best lýst sem svolítið bragðsterkum. „Hann er svona í sterkari í lagi en við þolum þetta alveg léttilega og sumt hentar alveg krökkum. Lambið er persónulega uppáhaldið hjá mér af þessum réttum sem við bjóðum upp á – mér finnst það alveg geggjað.“

Þrjár vikur eru síðan indverski pop-up veitingastaðurinn opnaði á Vor og segir Tómas að viðtökurnar hafi verið mjög góðar. „Við ákváðum að opna hljóðlega í þetta sinn – síðast opnuðum við með pomp og prakt þannig að það komu allir í einu sem skapaði mikið álag á starfsfólkið okkar. Með því að opna svona hægt rólega höfum við líka náð að þjálfa starfsfólkið vel í því að framreiða matinn,“ segir Tómas sem bætir því það séu mest heimamenn sem hafa verið að prófa indverska matinn.

„Fastakúnnarnir okkar hafa verið duglegir að smakka hann og fólk er ánægt með þetta,“ segir Tómas að lokum.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÍbúakosning í Hornafirði brýtur blað í sögu kosninga á Íslandi
Næsta greinUppsveitir úr leik í neðrideilda bikarnum