Alltaf jafn gaman í réttunum

Margar hendur vinna létt verk í Hrunaréttum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þrátt fyrir gjólu og hressilegar rigningarskúrir var góð stemning í Hrunaréttum í morgun. Jón Bjarnason, fjallkóngur og oddviti í Skipholti, segir að fjallmönnum hafi gengið mjög vel að koma safninu til byggða.

„Spáin var ekki skemmtileg og við flýttum norðurleit um einn dag, það spáði svo illa á laugardeginum í upphafi ferðar. Sá dagur er nýttur til þess að fara umleikis Kerlingafjöll, þau safna í sig þoku þegar það er rigning en við náðum þeim í björtu og það gekk vel að smala. Þannig að veðrið var framar vonum og skyggni gott,“ segir Jón en safnið telur um 3.500 fjár, sem er heldur færra en venjulega.

„Það er einn og einn sauðfjárbóndi að heltast úr lestinni en það koma líka nýir inn í staðinn,“ segir Jón og bætir við að fé komi vel haldið af fjalli. „Já, ég held að það komi vel út. Það er dálítið erfitt að meta það svona niðurrignt eftir nóttina en flestir eru á því að það sé með góðu móti.“

Réttarstörfin hófust klukkan tíu í morgun og gengu vel fyrir sig þrátt fyrir bleytuna. „Þetta er alltaf jafn gaman og bara hressandi að fá eina og eina skúr, en það er gott inn á milli þannig að þetta er bara fínt, eins og þetta á að vera,“ sagði fjallkóngurinn að lokum.

Tveir fjallmyndarlegir; Bessi Theodórsson, viðburðakóngur og Jón Bjarnason, fjallkóngur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Kristján Þór Kristjánsson, efnilegur sauðfjárbóndi frá Syðra-Langholti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Jóhanna SH
Hjalti Snær Helgason rekur féð einbeittur inn í almenninginn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Það er gaman að fylgjast með þegar safnið er rekið inn í almenninginn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Jón Viðar Guðjónsson gætti hliðsins í Hrepphóladilknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEllefu athafnalóðir í fyrsta áfanga
Næsta greinBatahorfur í rekstri en verðbólgan bítur fast